Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Morgunstund....

Ég misstu nánast andann þegar ég kom út úr Íþróttamiðstöðinni áðan, það er frábærlega fallegt á Egilsstöðum.  Það er vetur - það er orðið bjart og það er engin venjuleg birta...

Kannski var ég líka ánægð með mig að hafa drifið mig í spinning í morgun, Dandý var æðisleg að vanda og allar morgundrottningarnar sem ég svitna með á morgnana voru hressar og skemmtilegar eins og venjulega....

En ég á ennþá eftir að fara yfir 50 próf.....


Jákvæðni

Ég held að mér finnist jákvæðni skemmtilegasta persónuleikaeinkennið, skemmtilegasta nálgunin á málum, skemmtilegasta lífsviðhorfið...., jákvæðni er dyggð...

Það þýðir ekki að gagnrýni sé af hinu illa - hún er nauðsynleg til að breyta hlutum til betri vegar og ef hún er uppbyggileg er hún jákvæð og tryggir jákvæða þróun...

Upp á síðkastið hefur verið í gangi neikvæð umræða um ýmislegt tengt Fljótsdalshéraði:  neikvæð umræða um heilsársveg yfir Öxi sem er mikið hagsmunamál fyrir Héraðið, neikvæð umræða um Sláturhúsið sem m.a. hýsir ungmennahúsið okkar sem af sérfræðingum er talið með þeim alflottustu á landinu, neikvæð umræða um aðstöðu til samkomuhalds í þéttbýlinu á Egilsstöðum, leidd af þeim aðilum sem seldu samkomuhúsið okkar á sínum tíma....

Það þarf að laga útlitið á Sláturhúsinu, það þarf að vinna að því að auka framboð á afþreyingu fyrir ungt fólk, í samvinnu allra aðila, en það þarf að meta það sem vel hefur verið gert, byggja á því og halda svo áfram í markvissum skrefum að því marki sem verður sett....og vegurinn um Öxi eyðileggur ekkert fyrir Fjarðarbyggð...

Ég er ótrúlega leið á þessari neikvæðu umræðu - hún gerir ekkert gagn....

Ég vil allavega frekar verja mínum tíma með jákvæðu fólki í uppbyggilegum samskiptum...

Jæja - en að hinu daglega lífi... krökkunum mínum gekk alveg ágætlega á Ístöltinu á laugardaginn, komust bæði í úrslit þrátt fyrir stutta þjálfun...., mótið var fínt, en dálítið kuldalegt þegar líða fór á daginn... hátíðin um kvöldið var fín, frábær matur hjá henni Gróu súperkokki og ballið var fínt...

Um næstu helgi er það svo þorrablót í Kverkfjöllum, kappinn hann Maggi og kempan hún Rannveig buðu mér með sér..., hlakka mikið til, skilst að þorrablót í Kverkfjöllum sé afar spennandi skemmtun, svo hef ég aldrei komið í Kverkfjöll...

 

 

 


Opnir dagar, aðalskipulag, Djúpivogur og Ístölt 2008

Í yfirskriftinni koma fram helstu viðfangsefni vikunnar.   Það er nóg að gera, mér leiðist ekki þessa vikuna frekar en aðrar.

Í Menntaskólanum eru opnir dagar, þá er skólastarf brotið upp og önnur viðfangsefni tekin fyrir, ísdorg, vetrarakstur, ræðukeppni kennara og nemenda og margt margt fleira. 

Ræðukeppnin var í gærkvöldi, ég var í keppninsliði kennara ásamt Þorbirni, Þórhildi Þöll og Bryndísi Ford.  Umræðuefnið var: Eru austfirsk ungmenni á réttri leið? - kennararnir voru meðmælendur en lið nemenda andmælendur.  Það kom mér skemmtilega á óvart hversu skemmtilegt þetta var, við sigruðum naumlega en ræðumaður kvöldsins var hún Linda Jónsdóttir, nemandi...., keppnisskapið naut sín og allt var látið vaða á báða bóga...., held að hér eftir verði þetta fast atriði á opnum dögum...

Á morgun ætlum við að halda áfram að vinna í nýju aðalskipulagi, sem er afar spennandi verkefni en margar stórar ákvarðanir þarf að taka - á að lengja flugbrautina, á að skipuleggja byggðina meira til suðurs og norðurs eða eigum við að reyna að þjappa henni saman, Melshornsleið - inni eða úti... og svo mætti lengi telja, svo fundum við úti á Eiðum um kvöldið, hlustum á erindi um umhverfismál og hlustum svo á íbúa....

Á föstudaginn koma svo Djúpavogsmenn í heimsókn til okkar - til að skoða stofnanir okkar og stjórnsýslu og til að undirbúa hugsanlegar sameiningarviðræður, við borðum svo saman um kvöldið og Birni Hafþóri hefur verið lofað keti....

Á laugardaginn er það svo Ístöltið - þær Myrkva og Berglind Rós virðast ná saman í samstilltan dúett svo þær stefna ákveðið að keppni í unglingaflokki...., ég hlakka til að verja degi í náttúrufegurðinni við Eiðavatn og horfa á góða hesta þeysast um ísilagt vatnið - það er ævintýraleg blanda...  Um kvöldið verður svo hátíð, það hefur aldrei verið leiðinlegt að skemmta sér með hestamönnum svo það verður örugglega punkturinn yfir i - ið á góðum degi

 

 


Hrossastúss

Berglind Rós mín brosir allan hringinn í dag - hún fór á fyrsta reiðtúr ársins í dag.  Elskan hann Halli í Lönguhlíð járnaði Myrkvu og skutlaði henni í Fossgerði í gærkvöldi.  Við fórum síðan þangað í morgun til að kíkja á hana og síðan í Ketilsstaði til að ná í reiðtygi - þaðan var brunað í Fossgerði til að prófa reiðskjótann.  Það er meiningin að keppa á Ístölti 2008 um næstu helgi ef þær stöllur ná saman og Myrkva hefur ekki gleymt gömlum töktum..., ég er alsæl sem hestasveinn, nýt jarðsambandsins sem næst í nánum tengslum við skít og hrossamóðu..., en þegar sól fer að hækka meira á lofti gæti nú verið gaman að fara á bak...

Við Rannveig kíktum svo í bæinn á Egilsstöðum og eins og sést á "lötugrétu" í dag er hún afar ánægð með okkar verslanir og ég deili þeirri ánægju með henni....

Í kvöld verður svo sófakvöld - langþráð eftir sérstaklega annasama 10 daga....

 


Menntun er það sem lífið snýst um....

Í dag var verið að vinna að menntastefnu Fljótsdalshéraðs, ég var bara með í tvo tíma því samviskan var að naga mig - ekki er hægt að svíkja lærdómsþyrsta stærðfræðinema dag eftir dag ekki einu sinni í þágu menntastefnu..... Þessi vinna er afar spennandi en krefjandi, að þurfa að rökstyðja hvert orð sem maður segir, hafandi afar gaman af því að segja mörg orð, reynir á.....Joyful

Svo fór ég á kynningu á sameiginlegri framtíðarsýn Sambands sveitarfélaga, Skólastjórafélagsins og Kennarasambandsins um grunnskólann.  Frábær vinna og fín kynning - vonandi verður þessi fína framtíðarsýn að veruleika, þá eru íslenskir grunnskólar, nemendur og kennarar í góðum málum.

Í allri þessari menntaumræðu erum við mikið að tala um samstarf heimila og skóla, mér finnst aðeins gæta vonleysis í þeirri umræðu, kennarar svolítið búnir að gefa önnum kafna foreldra upp á bátinn og foreldrar ekki alltaf nógu hressir með skólann...., ég held að þarna gæti ákveðins misskilnings.  Það vilja allir foreldrar að börnin þeirra hegði sér vel og læri mikið í skólanum en vilja jafnframt að skólarnir sinni englabossunum þeirra vel, auðveldi þeim námið og leiðbeini þeim með samskipti.  Vantar ekki fyrst og fremst skýra verka- og ábyrgðaskiptingu.  Foreldrar bera ábyrgð á uppeldi en skólinn á skipulagningu náms???  Allavega megum við ekki gefast upp - þetta samstarf á jafnréttisgrundvelli getur skipt sköpum fyrir farsæla skólagöngu barns....

En núna ætla ég að fara að hitta gefandi konur og spjalla við þær í svona klukkutíma, vonandi get ég verið svolítið gefandi líka...

 

 


Stórhátíðisdagur

6. febrúar er mikill hátíðisdagur á mínum bæ..., ég á tvö börn fædd þennan dag.  Dagurinn í dag er sérstaklega hátíðlegur því hann Guðmundur Þorsteinn er tvítugur í dag og Berglind Rós varð táningur. Ég verð að fara að horfast í augu við aldur minn, tvö börn á þrítugsaldri og litla barnið orðið táningur...

Ég man aldrei áður eftir því að þessi hátíðisdagur hafi rekist á hátíðisdag allra landsmanna, öskudaginn...., að mörgu leyti afar skemmtilegur dagur, syngjandi börn í litskrúðugum búningum svífandi um allan bæ í léttri sykurvímu... Mér finnst þessi dagur samt hafa ákveðnar skuggahliðar.  Það eru alltaf einhver sorgbitin börn sem upplifa einsemd þennan dag því þau hafa ekki félaga til að fara með í bæinn...., ég hef ekki lausn á málinu en held að foreldrar og skólayfirvöld þurfi að vera meðvitaðri um málið og grípa inn í, svo gleði megi ríkja í öllum hjörtum.

Við ætlum að gera okkur glaðan dag á eftir og fá okkur að borða á Nielsen..., síðan verður margra vikna gleðskapur, fyrir stelpur, fyrir stráka, fyrir unga, fyrir aldna.... og einhverjar blöndur verða líka...


Klár í Útsvarinu

Okkar fólk stóð sig frábærlega í Útsvarinu í kvöld - sigraði stórt og Fljótsdalshérað komið í 8 liða úrslit í þessum skemmtilega þætti.  Mótherjarnir úr Skagafirði voru stórskemmtileg, greinilegt að allir skemmtu sér vel í þessum þætti...

Hlátrasköll mín þegar Þorbjörn lék gufubaðið ullu uppþoti á heimilinu...., mér fannst hann frábær...Takk fyrir að sigra aftur fyrir okkur krakkar, það er gott fyrir ímyndina.... Auðvitað ekki verra að þeir Þorsteinn og Þorbjörn gegna báðir trúnaðarstörfum fyrir Fljótsdalshérað fyrir sama framboð og ég starfa fyrir.....

Til hamingju krakkar og takk fyrir að vera okkar fulltrúar.


Útilokar ein samgöngubót aðra?

Það er vont þegar fólk er svo sjálflægt að það getur ekki unnt öðrum úrbóta.  Mótmæli gegn Öxi eru því miður staðarpólitík, þar sem þeir sem vilja að leiðin með ströndinni á Miðausturlandi verði meginleið um Austurland, unna ekki öðrum íbúum Austurlands styttingar leiða og vegabóta. 

Mér finnst að allar vegabætur á Austurlandi séu fagnaðarefni og því samgleðst ég Fjarðarbyggðarbúum mjög með Norðfjarðargöng og nýjan veg um Hólmaháls. 

Vegabætur á Austurlandi eru fagnaðarefni allra Austfirðinga - gætum þess að setja engar þeirra í uppnám með sundrungu og öfund....


mbl.is Öxin klýfur Austfirðinga í herðar niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband