Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Síðasti dagurinn...

Á morgun er síðasti skóladagurinn í ME þetta skólaárið.  Útskriftarnemarnir okkar dimmitera og við mömmurnar ætlum að gefa þessum elskum morgunverð í fyrramálið svo þau verði tilbúin í átök dagsins... Veðrið hér á Héraðinu er lítið spennandi - það er eiginlega bara vetur - já og það hávetur, í lok apríl..., en það þýðir ekkert að væla yfir því  - hverju breytir vælið svo sem...

Ég lauk við að gefa allar annareinkunnir í dag - uppskeran er misgóð - en flestir uppskera eins og þeir sá - einn og einn fær heldur lægra en manni finnst sanngjarnt vegna þess að próf hefur farið illa  - en það er hægt að leiðrétta að nokkru leyti með kennararaeinkunn sem endurspeglar vinnusemi nemandans.

Það er mikið um að vera á morgun - dimmisjónin - síðustu kennslustundir í öllum áföngum - og síðan íbúafundur um aðalskipulag, sérstaklega tengt þróun þéttbýlisins í Fellabæ, annað kvöld...

Yndislegt að eiga svo frídag 1.maí - börnin ætla að keppa á firmakeppni Freyfaxa - ég verð þulur þar og slæ tvær flugur í einu höggi, geri gagn og fylgist með krakkaögnunum.  1. maí var stórhátíðisdagur í minni fjölskyldu þegar ég var krakki  -  móðuramma mín hún Sesselja átti afmæli þann dag - og það var alltaf veisla og fullt af fólki í kringum okkur þann dag - alltaf gaman...

Að kvöldi 1. maí ætla ég svo að fljúga suður  - hlakka ótrúlega mikið til - það verður yndislegt að hitta fólkið mitt þar - upplifa borgina og hitta sérkennaraskólsysturnar á föstudagskvöldið - finnst órtúlegt að það séu 15 ár síðan við lukum náminu okkar á Stóru-Tjörnum... en ætli manni finnist ekki gaman að vera til ef tíminn líður svona hratt...

En nú er best að hvíla sig svolítið til að vera tilbúin í skemmtilegan 30. apríl...Smile


Löng helgi

Þetta er búin að vera fín fjölskylduhelgi - mér tókst að ná gelgjunni og englabossanum á hestbak á sumardaginn fyrsta - og svo var farið á stelpureiðtúr á föstudaginn líka.  Mikið sem það er nú gaman að fara á hestbak - skil aldrei af hverju ég geri þetta ekki oftar þegar ég loksins dríf mig... það gefur frábært jarðsamband að moka skít, kemba og anda að sér ilmandi töðulyktinni, svo ekki sé nú talað um tilfinninguna að ná sambandi við hestinn..

Rannveig bauð okkur svo í þetta fína læri á föstudagskvöldið - krakkarnir komu bæði með, við horfðum á Útsvarið með henni.  Rannveig Kópavogsbúi var ánægð með úrslitin - ég hefði nú viljað hafa Akureyringana með áfram til að halda uppi merki landsbyggðarinnar...

Sumargjöfin stendur glansandi á svölunum - grillaðar gæsabringur með öllu tilheyrandi í kvöldmatinn í gær, Guðmundur Þorsteinn sá alfarið um máltíðina... frábært að eiga börn með þessi fínu matreiðslugen og almennan mataráhuga úr föðurfjölskyldu sinni ágætri...

Skemmtilegur fundur hjá mér í gær - pólitísk umræða af bestu gerð ..., samherjar í pólitík geta haft aðeins mismunandi áherslur sem gefa skapandi umræðu...

Aðeins öðruvísi samkoma hjá mér í morgun - Rannveig og Dandý komu í morgunkaffi - það var slúðrað svolítið og hlegið meira - þrælskemmtilegir sagnaþulir þessar náttfatamorgunverðarvinkonur mínar...

Og nú eru það bara stærðfræðiverkefni í hundraðavís sem bíða rauða pennans - annars er ég svoooo montin með árangurinn í þessum stöflum sem ég er búin með - það þornar alveg í rauða pennanum á milli...hornaföll, fjarlægðaformúla og miðpunktsregla vefjast lítið fyrir þessum snillingum mínum. Smile

 


Gleðilegt sumar elskurnar

Ég held að vetur og sumar hafi ekki frosið saman hér á Héraðinu, en ég er samt bjartsýn, held að við fáum gott sumar á Héraði - enda er það nú raunin flest sumur - svo hér er um staðreyndir að ræða en ekki spádóma...

Ég á margar skemmtilegar æskuminningar tengdar sumardeginum fyrsta - skrúðgöngur, fánar, skátamessur, nýjar flíkur, litlar sumargjafir og pabbi er afar áberandi í þessum minningum, hlýr og hlæjandi..., mikið er nú gott að geta yljað sér við góðar minningar.

Ein minningin er ljúfsár - nýir skór (flottar mokkasínur með pening í raufinni ofan á ristinni!!) og skrúðganga í Garðabæ, flott blanda en ekkert sérstaklega góð fyrir hælana - mokkasínurnar voru allavega ekki notaðar í einhverja daga eftir skrúðgönguna...

Ég hef reynt að halda í ákveðnar hefðir varðandi sumardaginn fyrsta - sumargjafir og fjölskyldusamveru. Það breytist samt ýmislegt þegar börnin vaxa úr grasi, unglingarnir vilja vera með vinum sínum - en mér finnst þau samt alltaf vilja vera með gamla dótinu ef maður stingur upp á því - svo nú vona ég að ég nái þessum börnum mínum sem hjá mér búa á reiðtúr í dag.

Á hádegisfundi hjá fjölskyldunni í íbúð 203 í Kelduskógablokkinni í gær var tekin ákvörðun um sameignilega fjölskyldusumargjöf  - grill - það gamla er endanlega búið á því - allir glaðir og ánægðir með samþykkt fundarins - svo nú þarf bara að framkvæma - Guðmundur Þorsteinn var settur í verkið, mamma borgar...

En nú ætla ég að fara út að hjóla - leikfimihópurinn minn ætlar út að skokka - ég nenni ekki að skokka, ég verð svo gömul í hnjánum af því - svo ég hjóla bara með þeim - svo er það heiti potturinn, unglingarnir mínir sofa - og ég geri ráð fyrir að þau sofi vært þegar ég kem heim aftur.... En megið þið eiga góðan sumardag með ykkar fólki Grin


Skólastarf á 21.öld

Elskurnar mínar í stæ 292 eru að taka síðustu könnun vetrarins, þau eru búin að standa sig vel í vetur, sum eru að ná valdi á stærðfræðinni eftir áralanga baráttu - aðrir þurfa enn lengri tíma...

Mér finnst krakkarnir almennt rosalega þreytt og keyra á alsíðustu dropunum núna síðustu dagana.  Ég er hugsi yfir því af hverju þau eru svona þreytt - ég gæti alveg farið í þann gír að segja bara að þau sofi ekki nóg, borði ekki nógu hollan mat, drekki of mikið og tiltekið marga fleiri neikvæða þætti - en ég held að þeir séu bara hluti af skýringunni, er hrædd um að það sé alltaf að verða stærra bil á milli skólans og þess sem fer fram þar og þess lífs sem krakkarnir lifa utan skólans - þessir krakkar lifa í tæknivæddum heimi með sitt msn, myspace og allt hitt - en koma svo í skólann og nánast rita með sauðablóði á skinn..., eru andstæðurnar of miklar fyrir þau....

Það þarf einhverja gagnkvæma aðlögun, hef ekki lausnina - en ætla ekki að gefast upp á að leita að henni...

Fór í spinning í morgun - Dandy var hress að vanda - en hún sveik okkur um dansinn - hann hlýtur að verða æfður á mánudaginn, held að það sé hollt að byrja daginn á léttri sveiflu...

 


Vor á Héraði

Þegar ég var unglingur, upp úr miðri síðustu öld - var alltaf gott veður þegar ég var að læra fyrir vorpróf, svalirnar á Móabarðinu voru gerðar að lessal og sólin sleikt í bak og fyrir um leið og stórmerkilegur fróðleikur var meltur.

Þegar ég flutti hingað austur á Hérað varð ég yfir mig hrifin af veðráttunni hér - nema í maí.  Mér finnst oft koma vor hér í apríl og síðan aftur vetur í maí og svo kemur sumarið allt í einu, gjarnan á einni nóttu, upp úr 10. júní.

Maí er því eini árstíminn sem ég sakna Hafnarfjarðar og nágrennis og hef því oft fundið mér tilefni til að vera mikið á því landshorni þann mánuðinn. Hef sjaldan verið eins dugleg að snapa mér suðurtilefni eins og í maí 2008. 2. maí ætla ég að halda upp á það með félögum mínum að það eru 15 ár síðan ég útskrifaðist sem sérkennari, 9. maí ætla ég að byrja að fara yfir samræmda prófið í stærðfræði og taka í það svona 10 daga og 30. maí ætla ég svo að halda upp á 30 ára stúdentsafmæli með gömlum félögum úr Flensborg. 

En veðrið á Héraðinu þessa helgina hefur verið dásamlegt ..., það er líka eins og það hafi lifnað yfir bænum og íbúunum - örtröð í bílaþvott er einn vorboðinn, það var meira að segja örtröð hér á bílaþvottaplaninu okkar í Kelduskógunum - en Steini skipulagði og aðstoðaði svo allt gekk eins og í bestu vinasögu.  Í morgun fór ég svo í langan hjólatúr inn Velli og naut náttúrufegurðar og blíðviðris. Kannski næ ég að upplifa tvöfalt vor enn einu sinni - aprílvorið á Héraði og maívorið í borginni..., lífið hefur upp á svo margt að bjóða... 

 


Íbúalýðræði

Ég er mjög hlynnt íbúalýðræði og tel það undirstöðu þess að samfélag þróist á jákvæðan hátt að íbúar telji sig geta haft áhrif á umhverfi sitt bæði náttúrurlegt og félagslegt.

Þess vegna er ég ánægð með góða mætingu á íbúafundi hér á Fljótsdalshéraði þar sem við erum að kynna vinnuna við nýtt aðalskipulag.  Það var fínn fundur í Brúarási í gærkvöldi - um 40 fundargestir sem flestir höfðu mikið til málanna að leggja komu til að spyrja, uppfræða og gera athugasemdir.  Þema fundarins var ferðaþjónusta og þau áhersluatriði sem mér fannst koma fram voru: Vatnajökulsþjóðgarður og tækifæri honum tengd, hreindýrin og hestaferðir og reiðstígar.

Í öllum þessum málum er samstarf við landeigendur forsenda framþróunar - vona bara að það stoppi okkur ekki af, samsarf er jú gagnkvæmt ferli þar sem allir aðilar máls þurfa að leggja sitt af mörkum...

En - sólin skín enn á Héraðinu - það er notalegt að lifa í voninni um gott helgarveður..Smile


Vorönnin er að verða búin

Var að gera mér grein fyrir því að þegar kennslu lýkur í dag á ég eftir að kenna 9 daga þetta skólaárið. Fékk létt áfall - en gerði mér svo grein fyrir því að í öllum mínum áföngum er ég í nokkuð góðum málum - yfirferð námsefnis er langt komin og markmið þar með að nást.  Þá þarf bara að fara að skipuleggja síðustu spor nemenda fyrir próf, til að þau spor verði farsæl og árangursrík veit ég af langri reynslu að nú þarf að hvetja og hrósa sem aldrei fyrr - flestir nemendur mínir eru þannig staddir að stærðfræði er ekki þeirra sterkasta hlið og þegar próf nálgast fer sjálfstraustið niður fyrir núll. Þetta birtist í ýmsum myndum - fíflagangur er sennilega algengasta myndin, mitt vopn er að fíflast aðeins á móti og halda svo áfram - virkar oftast Smile

En vorið er að koma - það er yndislegt...


Fagmennska og pólitík

Ég á stundum svolítið erfitt þegar fólk tekur sig til og bolsótast útí pólitíkusa eins og það eigi lífið að leysa.

Það er eðlilegt að verk manna séu gagnrýnd og auðvitað hafa menn mismunandi skoðanir á forgangsröðun - en mér finnst gagnrýnin á samgönguráðherra afar ómakleg.  Þær ákvarðanir sem teknar hafa verið um ný samgöngumannvirki upp á síðkastið eru ekki gripnar úr lausu lofti - þær eru allar byggðar á margra ára undirbúningsvinnu og samstöðu heimamanna. 

Það er afar heppilegt að hafa landsbyggðamann sem samgönguráherra - mann sem þekkir af eigin raun hversu erfitt getur verið að komast á milli staða á landsbyggðinni og hversu takmarkandi það er fyrir dreifðar byggðir að vera einangraðar - stækkun atvinnusvæða er afar mikilvæg fyrir dreifðar byggðar og þar eru samgöngur alger forsenda. 

Auðvitað þarf að stórbæta samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, þar eru það umferðaröryggismál sem eiga að stjórna ferðinni.

Þetta tvennt á ekki að þurfa að vera mótsögn - við erum ein þjóð í einu afar víðfeðmu og strjálbýlu landi og landsbyggð og höfuðborg eiga að styðja hver aðra en ekki metast um hver fái meira eins og litlir krakkar...

Það er stórmerkileg lífsreynsla að prófa að vera pólitíkus - mér finnst hlutirnir stundum ganga afar hægt fyrir sig - kerfið þunglamalegt og á köflum vitlaust - en við verðum að halda ró okkar og vinna faglega - fyrirgreiðsla og viðbrögð við hvers kyns hamagangi og uppákomum verða að vera yfirveguð án þess að menn skýli sér á bak við kerfið og geri ekki neitt.

En nú ætla ég að kenna maurunum mínum í stæ 292 meira um hnit og föll...


Útsvarið gekk vel - en ekki alveg nógu vel

Þau stóðu sig með sóma okkar fólk í Útsvarinu í gærkvöldi - en herslumuninn vantaði - svona smáatriði eins og hvort björninn er stór eða lítill geta skipt máli... - en munurinn var lítill og við berum okkur vel. Takk fyrir ykkar framlag, Þorbjörn, Þorsteinn og Urður.

Stuðningsliðið fór svo á Hótel Hérað á eftir og drekkti sorgum sínum -  sorgin var ekki langvinn, hlátrasköll, sögur og trúnó, í góðru blöndu -  sannfærði mig enn frekar um að maður er manns gaman, fór glöð og ánægð heim til litlu dótlunnar um 12 leytið.

Í dag er svo margt á dagskránni: ræktin, hestamennska, fundur með Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs, sjúkrahúsheimsókn og svo árshátið Fljótsdalshéraðs í kvöld. Góður dagur framundan.Smile


Karlkennarar með hærri laun en kvenkennarar...

Ég verð að viðurkenna að á bjartsýnisskýinu sem ég sveima um á flesta daga - er kennarastéttin undanskilin kyndbundnum launamun, það er alltaf verið að tala um kvennastétt - hvað sem það nú þýðir... En samkvæmt nýjustu upplýsingum um þessa stétt eru karlarnir með 18% hærri heildarlaun en konurnar og 5% hærri laun ef allar breytur eru jafnaðar.  Ég verð greinilega að koma niður á jörðina í einhvern tíma og endurskoða veru mína á bjartsýnisskýinu. 

Ég get ekki skilið þennan mun - við erum að tala um nákvæmlega sama starfið - það krefst ekki líkamlegra burða, það krefst ekki utanáliggjandi kynfæra, það krefst ekki djúprar raddar - það krefst faglegrar færni til að skipuleggja nám og kennslu, það krefst áhuga á ungu fólki, það krefst umburðarlyndis og samskiptahæfni, það kefst húmors og jákvæðni..... - halló hvað er að????

Stelpur, það er starfsmannaviðtal í dag - þar sem krafan er 5% launahækkun að minnsta kosti...Devil


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband