Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Vinnulag

Mér verður það sífellt betur ljóst að það eru ennþá til karlmenn sem trúa því í alvörunni að konum sé ekki treystandi til að gegna ábyrgðarstöðum, en þær séu fínar til uppfyllingar og skrauts.  Þegar atburðir minna mig á þessa afstöðu karla hrekk ég alltaf í kút, klíp mig aðeins og hugsa - það er kannski bara árið 1909, en ekki 2009!

En það er árið 2009 - konur á landsbyggðinni eru með tæplega 17% lægri laun en karlar - og karlar passa upp á það að konur komist ekki á toppinn, nema þar sem þeim hentar og í umræðum á tillidögum!!!

Það er ljóst að það þarf að blása til alvörusóknar til að gera öllum þjóðfélagsþegnum það ljóst að best er að aðferðafræði beggja kynja sé viðhöfð allsstaðar og þegar aðferðafræði karla hefur klikkað illilega um árabil er snjallt að prófa hina í stað þess að spóla svo flag sé eftir...

Það er gott að eiga skýra lífssýn um jöfn tækifæri allra   - og ennþá betra að berjast fyrir henni - svo nú er um að gera að einhenda sér bara í það.  Megið þið eiga góðan baráttudag fyrir ykkar hjartans málum.

 


Útsvarið

Það var mikil spenna í sjónvarpssal í gærkvöldi þegar mitt fólk sigraði Akureyrarliðið naumlega í Útsvarinu.  En þau sigruðu og það var sætt...

Til hamingju Þorsteinn, Urður og Stefán Bogi og takk fyrir að vera glæsilegir fulltrúar Fljótsdalshéraðs.

Núna perlum við Karen Rós í Grafarholtinu meðan mamman er í ræktinni og við ætlum að dúlla okkur eitthvað þangað til ég fer heim í dag svo mamman geti lært svolítið.

Á morgun er svo kjördæmisþing Samfylkingarinnar í Norðaustrinu þar sem við ákveðum hvernig staðið verður að vali á lista, það voru afar snarpar umræður um það síðast - hlakka til þeirra umræðna aftur.

En nú verð ég að halda áfram að perla...Wink


Líf og fjör á Álftanesi

Við sátum nokkur við eldhúsborðið hjá mér í gærkvöldi og ræddum pólitík - forsetahjónin bárust í tal - og við konurnar viljum fá Dorrit með okkur í saumaklúbb. Ég hef ekki verið í saumaklúbb síðan ég var 12 - en ég held svei mér þá ég væri til í að vera með Dorrit í klúbbi, það yrði örugglega hlegið, sagðar sögur og sköpuð nýyrði.

Verð að viðurkenna að fyrirsögnin um skapofsa forsetans á netmiðlunum núna kveikir lítið bros - ég sé ekki alveg fyrir mér hvernig hárgreiðslan verður í verstu köstunum LoL eða kannski sé ég það einmitt svo skemmtilega fyrir mér.

Auðvitað eru þessar umræður um forsetahjónin hálfleiðinlegar - en er ástæða til að taka þær mjög hátíðlega????

Sit núna og undirbý mig fyrir smáinnlegg sem ég á að vera með um skóla án aðgreiningar í borginni á morgun - verð alltaf ánægðari og ánægðari með þessa útfærslu á réttlátu skólakerfi.

Hér skín sólin svo stirnir á mjöllina - fagurt sem aldrei fyrr á Héraði.


Á meðan rífast menn á þingi um hagsmuni einstakra hálaunamanna

Kjör þeirra sem minnst hafa skerðast á meðan Geir er miður sín yfir að hans fólk missi bitlinga sína vegna setu í bankaráðum. Pétur Blöndal ver Davíð vin sinn og fólkið í landinu segir amen amen og fylgi Sjálfstæðisfólksins eykst .... jákvæðnin frá síðustu færslu á erfitt uppdráttar við þessar aðstæður...

Er ekki hægt að setja reglur um það að nú megi bara ræða um þau verkefni sem verður að vinna til að leiða þjóðina - fyrirtæki og einstaklinga - af stað út úr kreppunni??? Súrhey geymt þar til við höfum ekkert annað að gera en að karpa.

Það þarf að bretta upp ermar og vinna - það þarf að spara og skera niður útgjöld á eins sanngjarnan hátt og hægt er.  Það þarf að byrja á því að skera allt niður sem ekki er bráðnausynlegt og það er ekki eftir neinu að bíða - nema kannski vinnufriði????  Angry


mbl.is Skerða lífeyri um allt að 10%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jákvæðni og lausnaleit

Það er suma daga erfitt að vera jákvæð og horfa björtum augum til framtíðar.  Það er sérstaklega erfitt núna í febrúar 2009 - og sumir segja að ástandið eigi eftir að versna mikið næstu vikur og mánuði.  Kannski er þægilegast að horfa bara á dökku hliðarnar, gera ekkert því allt er hvort sem er að fara norður og niður og finna svo sökudólga í hverju horni.

Mér finnst tvennt afar erfitt í þessu ástandi:

  • Að horfa upp á fólk missa atvinnuna
  • Að finna að fólk er að missa trú á fyrirtækjum og stofnunum og jafnvel á náunga sínum

Þetta með atvinnuleysið er eðlilega lamandi og skelfilegt og bara hægt að biðja og vona að atvinnuástandið batni sem fyrst.  En á þeim vettvangi skiptir viðhorfið afar miklu máli - það að halda í vonina, vera bjartsýnn og þegar best lætur - reyna að búa til atvinnutækifæri fyrir sig og jafnvel fleiri hjálpar fólki í gegnum erfiða tíma - þó maður borði auðvitað ekki jákvæð viðhorf.

Tortryggni er eðlileg í ástandi dagsins - það er eðlilegt að fólk treysti ekki valdhöfum og sé skíthrætt um peningana sína. En þarna skiptir viðhorfið líka máli - það er munur á varkárni og tortryggni - ég hef á tilfinningunni að tortryggni geti skemmt afar mikið fyrir því að frumkvæði og mannauður nýtist sem skyldi - það að vera almennt jákvæður gagnvart fólki, hugmyndum og fyrirtækjum getur verið ákveðið hreyfiafl til framfara - maður má því ekki festast algerlega í því að treysta engum...

Með jákvæðu viðhorfi og trú á kraft okkar og visku getum við drifið okkur upp úr vandanum og farið að hugsa í lausnum.  Ég hef mikla trú á mínu fólki og veit að það býr yfir miklum sköpunarkrafti og hugmyndaauðgi sem þarf að nýtast til að byggja upp nýtt samfélag - við það finnst mér að opinberir aðilar þurfi að styðja með ráðum og dáð.


Ekkert athugavert...

Davíð ætlar ekki að standa upp úr stól sínum án láta - enda hefur hann ekkert gert rangt!!!!! - í gær talaði ég um heimsku - í dag um siðleysi og fullkomna siðblindu - skyldi hann í alvöru halda að það sé best fyrir þjóðina að hann sitji þarns fastur á sínum f.... rassi - eða kannski verst.... og finnist það gott... Áfram Jóhanna - ekki láta hann buga þig - kallaðu færustu lögfræðinga og stjórnsýslufræðinga til þín til að losa megi karlinn úr stólnum sem allra fyrst.

Var á frábæru þorrablóti í gærkvöldi - Vallahreppur hinn forni hélt sitt blót á Iðavöllum - maturinn var frábær, súrmaturinn almennilega súr, hákarlinn vel kæstur og makkarónusalatið á sínum stað.  Svo var dagskráin stórfín, mikið sungið, góður annáll og fín leikatriði - Gleðikvennafélag Vallahrepps, sem við Rannveig vinkona erum stofnfélagar í, fékk flott skot í tengslum við reiðhallarumræðuna og ég veltist um af hlátri þegar Jörundur Ragnarsson birtist með krullur og rósir og lék mig með tilþrifum.  

Síðan var dansað til fjögur við fínan undirleik hljómsveitarinnar Nefndarinnar og það voru sárfættar, þreyttar en afar glaðar vinkonur sem yfirgáfu Iðavelli upp úr fjögur.  Við Edda vorum fyrirfram ákveðnar í því að við færum síðastar úr húsi og stóðum galvaskar við það.  Þessi þorrablót eru einstakar skemmtanir - ég slepp við að vera í nefnd næst - en veit þá að árið 2011 verður mitt ár og þá get ég tekið Berglindi Rós með mér í slaginn.

En englabossinn var að missa af flugvél - svo ég ætla að fara og spjalla við hrossin og gefa þeim tuggu - enda fékk ég óvænt frí frá morgungjöfinni.


Hver ræður í þessu landi????

Verð að viðurkenna að ég er hissa, bálreið og vonsvikin yfir því að bréf frá forstætisráðherra landsins með ósk um að Seðlabankastjórar sem eru starfsmenn ríkisins hætti störfum dugi ekki til.  Ég veit að það er stórmál að segja þeim upp, það þarf tilheyrandi áminningar - munnlegar og skriflegar - og hvers kyns skrifræði  til að fullnægja því réttlætismáli sem breytingar á stjórn Seðlabankans eru ef koma þarf til uppsagna.  Það er löngu vitað að Davíð Oddsson er hrokafullur og þrjóskur - en að geta setið áfram vitandi að ríkisstjórnin og þjóðin vilja hann burt - hlýtur að teljast heimska - og fram að þessu hef ég ekki talið það orð lýsa honum - en kannski er skýringin á hegðun hans bara svo einföld... Veit lítið um hina tvo - tek ofan fyrir Ingimundi - og verð að viðurkenna að ég tel Eirík bara fylgja Davíð - án þess að vita neitt um það - stundum leyfir maður sér bara að álykta...

Um leið og ég ergi mig yfir þessu - velti ég aðeins fyrir mér framboðsmálum - atvinnuástandi á Héraði - en leyfi mér í dag fyrst og fremst að hugsa um hvað ég ætla að skemmta mér vel á þorrablóti Vallamanna á Iðavöllum í kvöld.  Aldrei þessu vant er þetta blót það eina sem ég ætla á - svo ég hef lítið etið af súrmat og  hákarl og takmarkað kneifað öl á þessum þorra - svo nú þarf að taka vel á því.

Er í þeirri merkilegu stöðu að vera ein heima um helgina, englabossinn er að keppa í handbolta í borginni og örverpið að keppa í körfubolta í Skagafirðinum.  Ég þurfti því að gefa hrossum þeirra í gærkvöldi og síðan aftur í fyrramálið - finnst afar róandi að nusa af heyi, moka aðeins skít og spjalla við hrossin, það gefur manni jarðsamband.  Mín hestamennska felst fyrst og fremst í því að vera hestasveinn fyrir börnin mín og ég kann því vel - fínt að komast á bak einstöku sinnum - svona þegar heldur fer að hlýna.

En nú þarf að fara að huga að fötum, skarti og snyrtingu...


Góður dagur

6. febrúar er og verður einn stærsti hátíðisdagur ársins hjá mér og mínum.  Þann dag árið 1988 fæddist englabossinn minn sem síðar fékk nöfn afa síns og langafa, Guðmundur Þorsteinn, á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum, að viðstöddu prúðbúnu fjölmenni, því þorrablótstíminn var í hámarki og ljósmóðir og læknar kallaðir af blótum til að taka á móti þessum yndislega dreng. 

Pabbinn var ákveðinn í að í þetta sinn ætlaði hann að tilkynna mér hvort kynið við værum að eignast og kallaði um leið og stráksi slapp út - það er strákur - og þá stundi mamman sem þurfti heldur meira að hafa fyrir því að koma englabossanum í heiminn en pabbinn - hann heitir a.m.k. Guðmundur. 

Nú eru 21 ár síðan þessi fæðing átti sér stað  - en - 7 árum seinna, 1995  fékk Guðmundur Þorsteinn svo litla systur í afmælisgjöf - hún fæddist í Reykjavík - og það var bara sloppaklætt fólk viðstatt - en talsvert mikið af því - legvatnið var litað svo einhver viðbúnaður var - en hið kraftmikla örverpi okkar orgaði hressilega og losaði sig við allan óþverrann ein og sjálf - og þetta upphaf hefur mótað hana talsvert - hún getur og gerir ýmislegt ein og sjálf.  Hugmyndaflug foreldranna var ekki meira en svo að þau nefndu dömuna bara eftir þeim sjálfum - enda Berglind Rós hið fallegasta nafn.

Það er mikið ríkidæmi að hafa fætt af sér þrjú heilbrigð börn sem öll eru vel af guði gerð og hefur vegnað vel í lífinu fram til þessa - það er ekki sjálfsagt og mér finnst ég þurfa að þakka fyrir það á hverjum degi. 

Þess vegna finnst mér það líka skylda mín að viðhalda góðu sambandi við pabba þeirra þó að okkar hjónabandi sé lokið.  Börnin okkar eiga það skilið að við séum áfram foreldrar þeirra, saman, þegar þess þarf og getum talað um allt sem þeim viðkemur í góðri sátt.  Þess vegna gefum við þeim enn saman allar gjafir svo þau fái sem oftast að upplifa að þó mamma og pabbi búi ekki saman er það í raun okkar mikilvægasta hlutverk að vera foreldrar þeirra.

Ég veit að stundum er málum þannig háttað að erfiðleikarnir sem á undan eru gengnir eru svo miklir að góð samskipti eru nánast útilokuð.  Þess vegna held ég að það sé stundum betra að skilja áður en allt er komið í fastan óleysanlegan hnút - þó ég mæli ekki með hjónaskilnuðum nema ekkert annað úrræði sé til staðar.

Jæja þetta var svona sálfræðileg færsla - engin pólitík í dag.... megið þið eiga góðan dag Wizard


Einlægni Jóhönnu og fíflagangur sjallanna

Var auðvitað ánægð með Jóhönnnu í gær - hún klikkar aldrei - einlægni hennar og biðlan til þings og þjóðar um samstöðu á erfiðum tímum hittir vonandi í mark víðar en hjá mér.

Sjónleikurinn "Kosning þingforseta" var óneitanlega spaugilegur - en ekki alveg það sem háttvirt Alþingi ætti að eyða dýrmætum tíma sínum í - aldrei - og alls ekki þegar heimili og fyrirtæki í landinu berjast fyrir lífi sínu.  Ekki leið til að auka trúverðugleika stjórnmálamanna!!!

Vonandi verður vinnufriður á þingi núna svo fara megi að vinna þau verkefni sem verður að vinna til að samfélagshjólið geti farið að snúast eðlilega - vonandi virka þau lagafrumvörp sem lofað er sem virk smurning á þau tannhjól sem verða að virka.

Ég dreif mig í ræktina í morgun - framundan er spennandi dagur sem er að miklu leyti helgaður vinnu við eflingu Vísindagarðsins ehf á Egilsstöðum og svo er foreldrafundur um Olweus í kvöld - orkan sem sótt er í hreyfinguna nýtist vel í verkefni daganna.  En ekki má gleyma að efla andann - er að lesa ævisögu Lárusar Pálssonar - frábærlega vel skrifuð bók - vantar aðeins meiri tíma til að geta sökkt mér niður í hana - hlýt að finna hann einhvers staðar.   Vona að við eigum öll góðan dag.


Og enn er frost á Austur - Fróni...

Hudruð milljóna evra tap eins fyrirtækis á Íslandi - glymur í útvarpinu - , hvernig er þetta hægt í okkar litla þjóðfélagi??? Það er auðvitað ekki hægt - loftbóluhagfræðin leit bara svo vel út - þangað til hún sprakk.... , verð að viðurkenna að ég skil tæplega svona háar tölur - þó ég hafi valið mér það að ævistarfi að reyna að leiða ungmenni í allan sannleikann um töfra talnakerfisins...

Er búin að fara í spinning í morgun - mikið púl - en innspýting á orku í daginn.  Mættar voru 15 konur á ýmsum aldri sem eru orðnar vanar að erfiða og svitna saman - góður félagsskapur, þessar dömur Smile.

Nú verð ég að fara að horfast í augu við að fermingarundirbúningur þarf að fara að hefjast - tveir mánuðir til stefnu og fermingarstúlkan tilvonandi er alveg að fara á límingunum yfir kæruleysi móðurinnar.  Matseðillinn var ræddur í gær - daman er með svo ákveðnar skoðanir og þokkalega skynsamlegar að hún fær bara að ráða þessu - enda talar hún um að hún geti nú alveg eldað sjálf!!! Og það er sennilega alveg rétt hjá henni, hún hefur fengið hin frábæru matreiðslugen föðurfjölskyldu sinnar og eldar frábæran mat - en hana skortir aðeins snyrtimennsku ömmu sinnar í eldhúsinu - en ég er fín í að ganga frá svo verkaskiptingin er ágæt hjá okkur mæðgum.  En sé fyrir mér að matur, föt, hárgreiðsla og skreytingar verða helsta umræðuefni við eldhúsborðið til 9. apríl, svona í bland við pólitíkina...

Get einbeitt mér að náminu mínu fram að hádegi - þá taka ýmis undirbúningsverkefni fyrir bæjarstjórnarfundinn við - en hann er kl. 17 - hann virðist þokkalega einfaldur svo ég geri ráð fyrir að vera komin heim á góðum tíma.  Gott að geta aðeins slakað á áður en skriðið er í bólið.  Við Edda erum búnar að lofa hvor annarri að mæta í ræktina í fyrramálið kl. 6:30 - eins gott að standa sig Wink


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband