Leita í fréttum mbl.is

SSA - þing á Djúpavogi

Var ásamt 11 öðrum fulltrúum Fljótsdalshéraðs á þingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi. föstudag og laugardag. Baldur Pálsson sá um að aka okkur á áfangastað - við fórum auðvitað Öxi en nutum útsýnisins lítið því veðrið var kolvitlaust.

Föstudagurinn var átakalítill. Kristján Möller, ráðherra sveitarstjórnar- og samgöngumála var með skýrt og fínt erindi um stöðuna í samgöngumálum í fjórðungnum og vangaveltur um stærð sveitarfélaga.  Grétar Eysteinsson prófessor við HA var með vangaveltur um hvort Austurland ætti að verða eitt sveitarfélag - mér fannst hugleiðingar hans yfirborðskenndar og lítið greinandi og var því mjög ánægð með að samþykkt var á þinginu tillaga um að vera með málþing um sameiningarmál fyrir næsta aðalfund. Þingskjölum var vísað til nefnda og önnur mál afgreidd áður en skemmtidagskráin tók við.

Óvissuferðin varð heldur styttri en fyrirhugað var því veðrið var ekki upp á það besta - en Djúpavogsbúar búa frábærlega með sína Löngubúð, sem hýsir þennan fína móttökusal ásamt stofum þeirra Eysteins Jónssonar ráðherra og Ríkharðs Jónssonar myndhöggvara sem báðir eru ættaðir úr sveitarfélaginu.  Boðið var upp á þjóðlegar veitingar hrátt hangikjöt, hákarl og harðfisk - frábært fæði með skemmtilegu spjalli við sveitarstjórnarmenn.

Maturinn í Hótel Framtíð var ekki af verri endanum - loðnan reykta frá Vopnafirði gómsæt og kannski það eftirminnilegasta á þessu frábæra veisluborði.  Andlegt fóður var borið fram með því efnislega - viðurkenningar veittar, Hornfirðingar kvaddir og auðvitað skrafað við sessunauta.  Upp úr miðnættinu hófst eitt fjörugasta ball sem ég hef verið á lengi og eftir þriggja tíma stanslaust úthald á dansgólfinu var skriðið í rúmið og sofið í fjóra tíma...

Laugardagurinn hófst með nefndarstörfum, ég valdi mér að vera í samgöngunefndinni enda starfandi í þeirri nefnd SSA á milli aðalfunda.  Að mestu leyti var full eining í nefndinni um hin ýmsu hagsmunamál fjórðungsins á sviði samgangna og fjarskipta.

Jarðgangnamál var eina ágreiningsefnið.  Ný áhersla Seyðfirðinga á jarðgöng til Héraðs sem annan áfanga í  Miðausturgöngunum olli aðeins skjálfta hjá Vopnfirðingum og Fjarðabyggðamönnum. 

Vopnfirðingar eru eðlilega orðnir þreyttir á því að áratuga baráttu þeirra, dyggilega studd af SSA, fyrir göngum undir Hellisheiði hefur engu skilað - þeir eru að vísu að fá miklar samgöngubætur í endurbótum á annarri vegtenginu núna - en það breytir ekki þörfinni fyrir göng til Héraðs.  Þeir eru hræddir um að þessi nýja áhersla Seyðfirðinga á einföld göng til Héraðs skjóti þeirra göngum enn á frest.

Fjarðabyggðamenn eru aftur á móti ekki lengur hræddir um Norðfjarðargöngin svo þeir þora að lýsa yfir fullum stuðningi við Miðausturlandsgöngin sem tengja þeirra byggðir mjög vel saman svo og Seyðisfjörð.  Það eru reyndar tvær hugmyndir uppi um Miðausturlandsgöngin og önnur þeirra gerir göng milli Seyðisfjarðar og Héraðs áfanga þessara metnaðarfullu hugmyndar um tengingu alls Miðausturlands með göngum.  Hin gerir aftur á móti ráð fyrir því að Seyðisfjörður tengist Norðfirði í gegnum Mjóafjörð.

Ég get ekki annað en stutt Seyðfirðinga í baráttu þeirra fyrir göngum sem þeir hafa nú sammælst um að berjast fyrir til Héraðs. Seyðfirðingar hafa enga aðra leið að heiman landleiðina en Fjarðarheiði sem er hæsti fjallvegur á Íslandi og oft afar erfiður yfirferðar - þeir hafa beðið þolinmóðir en unnið heimavinnuna sína og meðal annars dregið vagninn í baráttunni fyrir Miðausturlandsgöngunum sem virðast bara alls ekki eiga upp á pallborðið hjá stjórnvöldum og þeir hafa því ákveðið að skipta um gír til að vinna þessu stóra hagsmunamáli sínu brautargengi. Barátta þeirra snýst um líf og dauða byggðalagsins þeirra.

Ég lærði mikið á þessu þingi - ég hlustaði talsvert og ræddi við fólk ,reyndi að skilja hin ýmsu sjónarmið og setja mig inn í þau, þó maður eigi sannfæringar og sterkar skoðanir er nauðsynlegt að skilja sannfæringar annarra og virða þær. 

Ég virði t.d. skoðanir Fjarðabyggðamanna sem telja að Seyðfirðingar eigi meiri samleið með þeim atvinnulega séð vegna sjávarútvegsins og álversins og eigi því að leggja áherslu á samgöngubætur í þá átt - en ég tel að Seyðfirðingar sjálfir hljóti að vita best hverjir þeirra hagsmunir eru atvinnulega séð og ákvörðun um tengileið sé því þeirra og tek því afstöðu með þeim.

Við kvöddum Djúpavog síðdegis í glampandi sólskini - ætli nokkur bær á Íslandi sé byggður á fegurri stað?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Mjög góð greinargerð hjá þér Jónína. Fyrirsögnin á henni, er ekki misritun þar?

Jón Halldór Guðmundsson, 28.9.2008 kl. 11:38

2 Smámynd: Jónína Rós Guðmundsdóttir

Takk fyrir ábendinguna Jón Halldór - búin að laga landafræðina...

Jónína Rós Guðmundsdóttir, 28.9.2008 kl. 18:11

3 identicon

Gaman að lesa þessa greinargerð hjá þér Jónína mín. Auðveld yfirlestrar og mjög svo áhugaverð.  Já, samgöngumálin eru mjög mikilvæg og ég er sannfærð um að einn góðan veðurdag þá verður mið Austurland orðið að einu atvinnusvæði þar sem fólk getur valið sér búsetu óháð því hvar það vinnur, t.d. búið á Seyðis og unnið á Reyðar... væri það ekki frábært .... en hvenær það verður... það er stóra spurningin sem enginn veit.

Edda Egils (IP-tala skráð) 28.9.2008 kl. 23:01

4 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Tek undir með Eddu.  Þessa framtíðarsýn á ég með henni og ég leyfi mér þann munað að vera pínulítið bjartsýnn á að áfram þokist á næstu árum.

Jón Halldór Guðmundsson, 29.9.2008 kl. 17:36

5 Smámynd: Jónína Rós Guðmundsdóttir

Deili þessari sýn með ykkur, Edda og Jón, og er þrælbjartsýn líka...

Jónína Rós Guðmundsdóttir, 1.10.2008 kl. 08:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband