Leita í fréttum mbl.is

Lærdómsríkt ár

Sit ein við eldhúsborðið - fólkið mitt sefur enn sætt og rótt. Er búin að snyrta hreindýrahrygginn sem við ætlum að borða í kvöld og ætla svo að pensla hann með dýrindis kryddblöndu af og til í dag.

Á þessum degi lítur maður gjarnan til baka yfir árið, þetta ár hefur á margan hátt verið mér og mínum gott.  Miðhluti þess var þó talsvert mótaður af veikindum og síðan dauða Jóns Bergssonar, afans á þessum bæ, en góðar minningar og það að hafa haft tækifæri til að létta honum stundirnar undanfarin ár yljar öllum.

Hér voru teknar ákvarðanir sem þurfti að hætta við vegna breyttra aðstæðna - það átti að halda upp á hálfrar aldar afmæli mömmunnar á bænum - en þá var Jón mjög veikur svo hætt var við það - síðan ætluðum við að halda jól og áramót á Tenerife, vorum búin að panta ferð - en þá hrundi efnahagskerfið og óviturlegt að halda mikið af landi brott. Það er erfitt að hætta við svona hluti og manni finnst það hálfgert veikleikamerki - en í raun getur legið styrkur í því að halda ekki of fast í ákvarðanir heldur taka tillit og sýna sveigjanleika. Kannski verður þessu bara slegið saman, við gott tækifæri. Smile

Ég er búin að læra mikið á þessu ári sem pólitíkus - ég er búin að þurfa að endurskoða ýmis mál aftir og aftur - ég er búin að þurfa að horfa gagnrýnum augum á flokkinn minn og forystu hans og ég er búin að sjá að það þarf stáltaugar og járnbrynju til að taka ekki nærri sér alla þá gagnrýni sem sárreitt og örvæntingarfullt fólk lætur vaða yfir þá sem standa við stjórnvölinn. Þegar ég var á haus í barnaverdarmálum hérna í den var mér sagt að maður ætti að fá sér kaffibolla áður en maður færi að tjá sig mikið um mál - ég held að þetta eigi líka við í pólitíkinni...

Ég held að flest okkar sem blöndum okkur í pólítík gerum það af því að við viljum hafa áhrif - við viljum ekki bara sitja og gagnrýna við eldhúsborðið heldur stíga fram og leggja okkar af mörkum til framgangs góðra mála.  Til þess að slíkt verði þarf vald - og vald er vandmeðfarið - maður má aldrei missa sjónar af því af hverju maður er þarna og í umboði hvers - og það er nauðsynlegt að vera í góðu sambandi við umbjóðendur sína - upplýsa og hlusta - en á endanum er það valdhafinn sem þarf að taka ákvörðun og standa og falla með henni.  Og síðan er hið opinbera umhverfi með öllum sínum stjórnsýslulegu krókum og kimum hræðilega seinvirkt svo almenningi finnst ekkert vera að gerast þó stöðugt sé verið að ýta á eftir og kippa í spotta, óþolandi kerfi - en verndar líka hagsmuni okkar allra.

En auðvitað hugsar maður stundum hvort það sé þess virði að verja öllum sínum tíma í pólitískt stúss þegar umræðan úti í samfélaginu rífur niður og gerir lítið úr því sem verið er að gera - væri ekki bara betra að fara að prjóna og sauma???

Í höfði mínu sem inniheldur hugsanir pólitíkuss, námsmanns, mömmu, ömmu, húsmóður, konu, dóttur, systur, vinkonu ... er hálfgert hvirfilbylsástand á þessum gamlársdegi - en ég veit af gamalli reynslu að þar lægir, húsmóður-, móður- og ömmustússið sem bíður mín í dag mun hjálpa til við það. - En svo er því nú þannig farið að algert logn í kolli leiðir ekki af sér margar hugmyndir svo það er um að gera að láta bara blása svolítið.

Kæru vinir, megi nýja árið færa ykkur gæfu og gleði, hamingju og hlátrasköll, hlakka til frekari samskipta á árinu 2009.HeartHeartHeart

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Góðar hugleiðingar á þessum síðasta degi ársins.

Gleði- og gæfuríkt ár til þín og þinna og takk fyrir ánægjuleg samskipti á árinu sem er að líða

Sigrún Jónsdóttir, 31.12.2008 kl. 12:04

2 identicon

Takk fyrir árið sem er að líða Nína mín. Vona að nýja árið verði farsælt hjá þér og fjölskylunni  það verður kaffi og með því eftir Skaupið í kvöld í Skógarkoti. Þið kíkið ef þið nennið.

Rannveig Árna (IP-tala skráð) 31.12.2008 kl. 12:30

3 identicon

Gleðilegt ár og takk fyrir allt gott á liðnum árum. Við munum halda upp á áramótin í Hafnarfirði, þriðja árið í röð.

Sjáumst hress á nýju ári !!

Tóta og Skúli (IP-tala skráð) 31.12.2008 kl. 13:31

4 identicon

Elsku Jónína, mín kæra vinkona.  Mikið er alltaf gaman að lesa það sem þú skrifar, dáist að því hvað þú kemur því vel frá þér sem er í kolli þínum, hvirfilbylsástand eða ekki ;)  Gleðilegt nýtt ár og kærar þakkir fyrir mjög svo ánægjuleg kynni á árinu sem er að líða og óska þess að þær verði enn þá fleiri á nýju ári.  Áramóta knús

Edda (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 18:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband