Leita í fréttum mbl.is

Nýr dagur

Mikið er talað er um aukningu verðmætasköpunar í þjóðfélaginu og mest er talað um byggingu nýrra álvera og stækkun annarra.  Umhverfismat er talið þvælast fyrir og því eigi helst að sleppa.  Ég er afar hugsi yfir þessum áherslum.  Ég styð Þingeyinga reyndar í baráttu þeirra fyrir álveri við Bakka - tel að það sé afmarkað byggðaverkefni og komið svo langt að það eigi að verða að veruleika - en eftir vandað umhverfismat sem flýta má eins og hægt er.  Þar með tel ég nóg komið af álverum á Íslandi og að við eigum að snúa okkur að fjölbreyttari verkefnum til atvinnuuppbyggingar.

Mér finnst umræðan um það hvernig Finnar tóku á sínum efnahagsvanda fyrir tveimur áratugum mjög spennandi.  Þeir lögðu höfuðáherslu á aukið menntunarstig þjóðarinnar með fjölbreytilegu námsframboði.  Auðvitað tekur það tíma að byggja upp menntakerfið en þar sem við höfum fínan grunn til að byggja á er um að gera að byrja strax að hyggja að leiðum til að bæta menntunarstigið og auka fjölbreytnina í námsframboðinu svo allir finni eitthvað við sitt hæfi og eftir nokkur ár eigum við enn fleiri vel menntaða einstaklinga sem eru skapandi í hugsun og taka virkan þátt í því að byggja hér áfram upp þróað, tæknivætt velferðarsamfélag.

Mér finnst það veruleg forréttindi að fá að vera í námi á launum og finn hversu endurnýjandi það er.  Ég held að það myndi efla skólakerfið okkar verulega ef kennarar og stjórnendur fengju af og til tækifæri til að taka sér nokkurra mánaða leyfi til að rannsaka tiltekna þætti, lesa kenningar annara um þá þætti og vinna síðan að því að koma umbótum fram í skólunum.

Er annars kát og hress eftir verulega hressilegan spinningtíma hjá Þórveigu í morgun, það er gott að byrja daginn á hlátrasköllum með góðri hreyfingu.

Eftir að Glitnisskvísurnar eru búnar að gera upp bankadaginn ætlum við Eydís, Edda og Þórveig svo að bruna norður til Akureyrar og vera þar um helgina. Þar  verður hristur saman góður kokteill af slökun, hreyfingu og skemmtun.

Megið þið eiga góðan dag og góða helgi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Við getum farið ýmsar leiðir til að vinna okkur út úr vandanum. Við þurfum að vanda okkur og ég held að við eigum að reyna að gera meira úr því sem við höfum. Meiri gæði og fjölbreytni, en kannski ekki bara magn.

Nú þrýsta Norð-austlendingar á ríkisvaldið að að allt verði gert til að flýta undirbúningi álvers á Bakka, en mér finnst að ekki megi víkja til hliðar sjónarmiðum umhverfisverndar og lögformlegum framgangi sem að því lúta, þó við viljum gera allt til að örva atvinnulífið, ekki síst á þessu svæði.

Ég tek sérstaklega undir með Jónínu að við hugum að fjölbreyttari orkufrekum atvinnurekstri en álverum, því eitt er jafn víst og að álver hefja rekstur; þau loka líka innan fárra áratuga.

Jón Halldór Guðmundsson, 20.10.2008 kl. 13:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband